Mýrarkvísl leiðsögn 4-6 ágúst og veiði 11.ágúst morgunvakt.

Jæja ég verð að byrja á því að segja að ég hef verið með allt lóðrétt niður um mig hvað varðar þetta blogg. Ég ætlaði að flytja reglulega fréttir af veiðiferðum og leiðsöguferðum sem ég færi í en það hefur ekki gengið eftir vegna mikilla anna. En
allt stendur til bóta og ætla ég að segja frá í tveimur færslum viðveru minni við Mýrarkvísl sem verður í þessari færslu og svo hins vegar ferð sem ég fór í 22-27. júlí þar sem Litlaá, Múlatorfa, Staðatorfa, Efra Hraun og Syðra Fjall var heimsótt með þurrfluguveiði í huga. Það var frábær ferð en meira um það seinna.

Ég hef aldrei farið leynt með það að Mýrarkvísl er líklega ein af mínum uppáhalds ám. Ég hef einhvern veginn lært að elska allt við þessa á hvort sem það er fjölbreytileiki veiðisvæða/veiðistaða eða stórbrotið umhverfi. Margir hverjir fussa og sveija að veiða í gilunum og segja þetta ekki veiðiskap. Ég aftur á móti elska það. Oft eru þetta svo abnormal aðstæður að þú upplifir líklega hvergi svona veiðiskap neinstaðar í heiminum. Að klifra með kaðli niður á litla syllu þar sem þú kastar niður í gilið og horfir á stórlaxinn er engu líkt. Það er bara eitthvað svo spennandi við þetta allt saman.

Það eru þeir Matthías Þór Hákonarson og Jónas Jónasson ásamt mökum sem eru leigutakar af ánni. Þeir reka einnig verslunina veiðivörur og er hægt að skoða heimasíðu þeirra á veiðivörur.is

Á síðunni er hægt að bóka leyfi í Mýrarkvísl ásamt því að lesa sér til um ánna. Mér langar að láta fylgja með upplýsingar um ánna sem ég fann á heimasíðunni þeirra.

Mýrarkvísl: Lýsing

Mýrarkvísl er ein af hliðarám Laxár í Aðaldal. Eins og Laxá í Aðaldal er Mýrarkvísl þekkt fyrir háa meðalþyngd laxa og undurfagurt umhverfi. Mýrarkvísl rennur út í Laxá í Aðaldal um fjórum kílómetrum frá ósi Laxár. Þrátt fyrir að vera hliðará Laxár er varla hægt að segja að árnar séu líkar. Mýrarkvísl er frekar nett veiðiá sem þarf að fara nokkuð varlega að til að ná góðum árangri. Hún er rúmlega 25 kílómetra löng og á upptök sín í Langavatni. Það er lítið um miklar fyrirstöður í ánni fyrir laxinn fyrr en við Reykjafoss þar sem er laxastigi.

Meðalveiði síðan 1974 er 222 laxar.
Deilir ós með Laxá í Aðaldal.
Rómuð Stórlaxaá
Ævintýralegt aðgengi að mörgum veiðistöðum.
Urriða og laxveiði
Eingöngu er veitt á flugu í Mýrarkvísl.
Veiða sleppa.
Veiðileyfi í Langavatni fylgir veiðileyfum og þar er allt agn leyfilegt.
Veiðihús fylgir með kaupum á veiðileyfum.

Mýrarkvísl er skipt í þrjú svæði og veiðir ein stöng á hverju svæði.
1. Svæði sem nær frá ósi Mýrarkvíslar við Laxá og að veiðistað nr. 21 (Borgarhúsapollur) er frábært fluguveiðisvæði sem bæði heldur urriða yfir allt tímabilið jafnt og að gefa töluvert af laxi.

2. Svæði árinnar nær frá veiðistað 22 () og er erfiðara yfirferðar þar sem áinn rennur í gili en laxveiðin er þó yfirleitt mest á því svæði. Þó 2. Svæði geti verið erfitt yfirferðar eru margir veiðistaðir sem auðvelt er að komast að ef maður veit hvernig skal bera sig að og mæli ég með að þeir sem eru að koma í fyrsta skipti í ána lesi vel veiðistaðalýsingu.

3. Svæði og jafnframt efsta svæði árinnar er sannkölluð fluguveiðiparadís sem heldur miklu magni af urriða á fyrrihluta tímabils ásamt því að gefa yfirleitt góða laxveiði frá mánaðarmótum júlí/ágúst.

Ath: Mýrarkvísl er lítil og nett veiðiá og borgar það sig að nálgast veiðistaði með varkárni til að styggja ekki fiska en ekki má gleyma því að ef lax styggist er mjög líklegt að hann sé kominn á sama stað 30 mínútum seinna og er því mikilvægt að fara aftur yfir staðinn síðar.

Læt fylgja kort af ánni:

viewer

Ég get algjörlega kvittað undir þessa lýsingu af ánni.
Sjálfur hef ég veitt þarna á öllum tímabilum frá júní-september.

Júní og framan af júlí: Þá er Urriðatímabilið í ánni og þarna er mikið magn af Urriða en hann er heldur smár þó það leynist stórir Urriðar þarna líka. Svæði 3 er náttúrulega paradís fyrir þurrflugu veiðimanninn því áin rennur mjög hægt í gegnum það svæði og er mikið flatlendi þannig að hún líður um eins og spegill. Á 3.svæði er mikið magn Urriða og er hann duglegur að vaka þannig að maður getur lent í algjöru bingó-i með þurrfluguna. Einnig er frábært að Langavatn og Geitafellsáin fylgi með þegar keypt eru veiðileyfi í Mýrarkvísl. Enginn kvóti hefur verið á Urriðanum í Mýrarkvísl í mörg ár og er það líklega ástæðan fyrir því að Urriðinn er nokkuð smár í ánni. Ég vonast til að sjá einhvern kvóta til að vernda stóra Urriðan í ánni. Það þyrfti þó ekki að þýða að það ætti að sleppa öllum fiski nema þá kannski þeim sem væru yfir 40 cm því þeir eru eflaust of margir í ánni nú þegar. Ég get ekki ímyndað mér hvernig áin yrði ef allur Urriði sem er í ánni stækkaði um nokkra cm. Þá hugsa ég að maður tæki sumarfríið sitt í júní og eyddi því þarna.
Ég veit að mikil aðsókn var í silungaleyfin og mun færri fengu en sóttust eftir leyfum.

Mið júlí – Sept: Þá er laxveiðitímabilið í ánni. Ég myndi segja að Mýrarkvísl sé síðsumars á. Maður sér að laxinn er kominn í ánna upp úr miðjum júlí en það er ekki mikið af honum. Hlutirnir gerast þó mjög hratt eftir það og hægt er að reikna með að um mánaðarmótin júlí/ágúst séu komnir laxar í flesta staði. Í fyrra fór ég að veiða 4. ágúst og var þá mikið magn af laxi í ánni og allsstaðar fleiri en einn lax á hverjum stað en þá veiddum við bara á svæði 2 því lítið var af lax á svæði 3. Í ár er þetta aðeins öðruvísi. Í júní var gert við neðsta þrepið í laxastiganum og virðist það hafa skilað árangri því mun meira af laxi er á svæði 3 en á sama tíma í fyrra og gerir það að verkum að veiðin er dreifðari fyrir vikið.
Ég myndi síðan segja að ágúst og september séu algjört prime time í ánni.

En nóg um ánna og meira um ferðirnar tvær sem ég fór um daginn.
Ég var þarna með erlendum veiðimanni sem hafði ekki veitt í Mýrarkvísl áður og áttum við seinni vakt 4.ágúst allan 5. ágúst og síðan fyrri vakt 6.ágúst.
Við byrjuðum vaktina þann 4. ágúst á 3. svæði á efsta laxastaðnum sem er númer 51 og heitir neðri-Selvaðsdráttur. Þar urðum við ekki varir við fisk.

Næsti staður sem við reyndum var staður númer 48 og heitir Vikdráttur en oft kallaður Kötustrengur. Þessi staður var einstaklega gjöfull fyrir nokkrum árum síðan en var orðinn hálf ónýtur. Veiðistaðurinn var lagfærður fyrr í sumar og lítur mjög vel út núna en enginn var laxinn. Við náðum samt í flottan urriða með því að kasta uppstream upp í strenginn og strippa hratt niður. Var það rauð Francis sem gerði gæfu muninn þar.

Næst var það veiðistaður númer 46 sem kallast Beygjurnar. Þetta er einstaklega fallegur og skemmtilegur fluguveiðistaður. Við urðum varir við lax þar en náðum ekki að fá hann til að taka þrátt fyrir margar góðar tilraunir.
Næst var komið að Löngulygnu stað númer 41. Það hafði verið fram að þessu heitasti staðurinn í ánni. Staðurinn er mjög viðkvæmur, það er frekar grunnt þarna og mjög hæg rennandi vatn. Ég mæli með að staðurinn sé veiddur aðeins þegar það er vindur eða rigning svo yfirborðið gári aðeins. Sé algjört logn þá þarf ekki nema eitt slæmt kast og þú er búinn að skemma staðinn. Hægt er að sjá mynd og lesa nánari lýsingu á veiðistaðnum á skyggnu nr. 44 undir veiðistaðarlýsing á vefsíðu veidivorur.is undir Mýrarkvísl.

Þennan daginn voru aðstæður mjög góðar til að veiða þennan stað því það var töluverður vindur. rauð Francis var undir og nú átti að taka hann. Yfirferðin hófst og ekkert gerðist. Við fengum engar vísbendingar um að lax væri á svæðinu. Eftir að hafa fest fluguna í berjalyngi nokkrum sinnum í bak kastinu náði veiðimaðurinn góðu kasti. Flugan rann yfir staðinn en ekkert gerðist. Þá var ekkert eftir nema strippa fluguna inn og það var þá sem fallegur lax réðst á fluguna. Á land fór hann og mældist 67 cm.
20140804_185303

Við settumst niður og nutum augnabliksins eftir að hafa horft á eftir laxinum synda aftur frjáls út í hylinn. Við renndum aftur yfir staðinn skömmu seinna en urðum ekki varir.
Næst lá leið okkar niður á stað sem oft er kallaður Sigmarsdráttur. Sá staður hefur í gegnum tíðina gefið mikið af lax og þá sérstaklega þegar veitt var með maðk. Hann er töluvert erfiður bara með fluguna en nokkrir veiðimenn eru farnir að kunna á hann og farnir að landa nokkrum löxum á flugu en því miður hef ég ekki náð því enn. Enda fórum við fisklausir þaðan.
Við ákváðum næst að fara yfir ánna og fara austan megin og taka stað nr. 30 Syðri-Stekkur, nr. 29 Ytri-Stekkur og nr. 27 sem er voðhylur og er með fallegri stöðum í ánni.
Það er skemmst frá því að segja að við reistum lax bæði í Syðri og Ytri Stekk en urðum ekki varir við lax í Voðhyl sem kom mér á óvart. Dagurinn var að baki og hættum við örlítið fyrr til að geta fengið okkur kvöldmat í Heiðabæ.

Morgunvaktin 5.ágúst.
Ég spurði veiðimanninn hvernig hann vildi hafa þennan túr og hann svaraði að hann vildi upplifa og kynnast sem mest af ánni burtséð frá því hvar mesta laxavonin væri.
Við ákváðum því að fara á svæði 1 en það er skemmtilegt svæði fyrir fluguna en líklega minnstu líkurnar á laxi af þeim 3 svæðum sem í boði eru. Við byrjuðum á veiðistað nr. 2 sem heitir Garðspollur. Þetta er skemmtilegur staður. Þarna er falleg beygja sem laxinn er oft í og alveg niður breiðuna sem fylgir í kjölfarið. Það góða við þennan stað er að ef ekki er lax að þá áttu allavega góða möguleika á vænum urriða því þarna er oftast stærsti urriðinn í ánni. Við fengum eitt högg en ekkert meira en það.
Næst var staður nr. 3 Núpabreiða. Staður sem geymir oft lax en líka töluvert magn af urriða. Gleymi því aldrei þegar við félagarnir fórum þarna einn dag í júní og þá týndi félaginn 8 fína urriða á breiðunni allt andstreymis. Við urðum þó ekki varir við neitt þann daginn.

Næstur var staður nr. 4 Kletthylur sem er virkilega fallegur staður. Hann er veiddur vestan megin og er gott að byrja við efri klettinn og veiða svæðið vel á milli klettana og niður fyrir neðri klettinn. Heitasti staðurinn er milli klettana og er nauðsynlegt að ná að kasta yfir á dauðavatnið til að fá rétt rennsli á fluguna.
Þarna reistum við fisk og fengum gott högg en á land vildi laxinn ekki en það var gott og gaman að vita af honum þarna.

Næst var veiðistaður nr. 15 Táarhylur. Mjög fallegur veiðistaður en er annað hvort inn eða út. Þótt staðurinn sé neðarlega í ánni er hann bestur í september. Við urðum ekki varir við lax í þetta skiptið.

Við enduðum síðan á stað 21 sem heitir Borgarhúsarpollur sem er einnig fallegur staður og oft hægt að sjá laxinn en við sáum ekkert og fengum ekkert. Hádegið var tekið í Heiðabæ aftur og varð Hreindýrahamborgari með frönskum og coke fyrir valinu. Ég get vel mælt með þeim borgara því hann var algjört lostæti.
Við ræddum saman í hádeginu og veiðimaðurinn sagði mér að hann hefði virkilega notið morgunsins og var ánægður með þá veiðistaði sem við höfðum reynt þó enginn hefði laxinn komið á land. Við ákváðum því næst að reyna við svæði 2 og fara í gilið því hann hafði heyrt sögur af því og var spenntur að prufa.

Við byrjuðum í Gljúfrapolli, stað númer 36. Þetta var mjög gjöfull staður en er ónýtur að ég myndi segja og þyrfti að laga. Það er þó möguleiki að þarna leynist einn lax sem stoppar áður en hann heldur upp laxastigann. Við fengum ekkert þar nema litla urriða murtur.
Þar næst fórum við í Sigmarsdráttinn. Ég hafði æst veiðimanninn með því að segja honum að þetta væri erfiður fluguveiðistaður og aðeins þeir bestu næðu fisk þarna á flugu. Við það varð hann spenntur að prufa staðinn og var staðráðinn í að setja í fisk þar en það gekk ekki eftir. Þegar við vorum hættir þar löbbuðum við fram á grasbakkann til að athuga hvort það hefði verið fiskur í hylnum. Um leið og ég stappaði niður fætinum á bakkan skaust þessi fallegi lax undan bakkanum. Það var góð tilfinning að sjá fiskinn skjótast þar undan en enn á ný hafði þessi staður sigrað mig eða þá veiðimenn sem ég er með í leiðsögn.

Næst var förinni heitið í Stokkhyl staður númer 28. Þetta er einn af betri stöðum í ánni og geymir oft mikið magn af fisk en hann er ekki fyrir hvern sem er því þú þarft að fara niður á syllu með kaðli og veiða þaðan. Minn maður hélt að ég væri að grínast þegar ég sýndi honum staðinn. Hann spurði mig hvort einhver væri svo klikkaður að leggja það á sig að fara þarna niður til að veiða lax. Mér hafði sjálfum aldrei fundist það tiltökumál en sagði honum jafnframt að þessi staður væri mikið veiddur. Minn maður sagði að hann skyldi kannski hugsa málið ef það væri öryggislína í boði þegar hann ætti að fara þarna niður en ekki fyrr 🙂 Þannig lauk okkar för í Stokkhyl.

Næst var staður nr. 26 Nafarhylur. Þetta er skemmtilegur staður sem oft geymir mikið af Laxi. Ég fann hérna mynd af staðnum á netinu og nota hana í leyfisleysi. Það verða vonandi ekki eftirmálar af því 🙂
OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Því miður urðum við ekki varir við fisk þarna en við nutum þess að reyna við hylinn enda umhverfið stórbrotið.

Næst voru það veiðistaðir nr. 23-24 sem eru ármótin en það var svipað og með Stokkhyl. Minn maður var ekki til í neina áhættu því hann hafði lofað konu sinni að koma aftur heim. Var því ákveðið að við færum ekki meira á staði þar sem maður þyrfti að standa á syllum eða einhverju álíka.

Þegar þarna var komið mundi ég allt í einu eftir að á yfirferð okkar um svæði nr. 3 daginn áður að ég hafði gleymt stað nr. 49 sem heitir Straumbrot. Ég vildi því endilega fara þangað og reyna við það áður en við hættum þó það væri ekki beint í leiðinni.
Straumbrotið er virkilega góður staður og getur geymt mikið af laxi.
Við vorum að klára fyrstu yfirferð þegar flottur lax neglir rauðan Francis neðarlega í staðnum.
Á land kom fallegur 77 cm fiskur sem hafði gefið veiðimanninum frábærann bardaga með miklum rokum og stökkum.

20140805_162345

Þar með var seinni vakt lokið þann 5.ágúst og menn bara sáttir eftir daginn.

Við lögðum upp með að fara yfir líklegustu veiðistaði á seinustu vaktinni. Við vorum því vaknaðir snemma og tilbúnir í slaginn á slaginu 7 um morguninn. Þegar ég kom út vildi ég helst fara aftur inn og undir sæng því á móti okkur tók 7 stiga hiti og kaldur vindur ásamt stöku rigningarskúr.

Við byrjuðum á straumbrotinu en fengum ekkert. Ég sagði samt við minn mann að ef hitastigið færi í kringum 10 stig áður en vaktin væri búin að þá kæmum við hingað uppeftir aftur því það væru fleiri laxar í þessum stað. Við eyddum deginum í að fara í Kötustrenginn, Krókhyl, Löngulygnu, Sigmarsdrátt, Nafarhyl, Voðhyl og Syðri og Ytri Stekk og urðum ekki varir. Nú voru góð ráð dýr. Við vorum orðnir kaldir og blautir og áhuginn orðinn frekar lítill. Eftir að við kláruðum seinasta stað fórum við upp í bíl. klukkuna vantaði 45 mínútur í eitt og því tíminn að renna út. Hitastigið var orðið 9 gráður og því ákváðum við að renna aftur upp á straumbrot þó leiðin væri löng.
15 mínútum áður en að vaktin var búin var lax á. Þvílík átök og læti. Baráttan tók sinn tíma og var ég orðinn hræddur um að við næðum ekki að landa honum því laxinn keyrði sig inn í grænt slí sem festist á botninum og var það farið að safnast á línuna. Ég sagði við minn mann að nú þyrftum við að fara landa honum því ef það kæmi mikið meira slí á línuna að þá væru líkurnar litlar að við næðum að landa honum. Við gerðum því tilraun til þess að landa honum þó hann ætti nóg eftir. Fyrsta tilraun mistókst og rauk hann af stað. Önnur tilraun mistókst líka og var laxinn nærri búinn að keyra mig niður þegar ég reyndi að háfa hann. Nú stefndi hann niður ánna og ef við myndum missa hann niður fyrir gætum við kysst þennan lax bless. Það var því ekkert annað í stöðunni nema að hlaupa á eftir honum á meðan veiðimaðurinn myndi nota þá bremsu sem hann gæti og treysti sér til. Það dugði og endaði þessi fallegi hængur í háfnum.

image (2)

Frábær endir á frábærum túr.

Þetta er víst orðið heldur langt þannig ég verð stuttorður núna. Ég fór sjálfur að veiða að morgni 11. ágúst. Ég fór á svæði 3 og fékk einn lax í Krókhyl 67 cm hæng sem tók Green Butt þríkrækju stærð 12.

20140811_104035

Ég setti í annan lax í stað nr. 38 Gæshólmi en missti hann eftir stutta stund. Ég sá einnig risa lax í straumbrotinu en hann vildi ekkert sem ég bauð honum.

Frábærir dagar í Mýrarkvísl. Ég veit að það er mest allt uppselt að ég held en eitthvað örlítið laust í ágúst og september.

Ef þið viljið kaupa veiðileyfi í Mýrarkvísl að þá getið þið gert það hér Veiðileyfi

Ég vil einnig benda þeim sem er að fara að veiða í ánni að það er frábært slide show á síðunni hjá veiðivörum með veiðistaðalýsingu og myndum. Mjög flott framtak hjá þeim.

Takk fyrir mig. Vonandi var einhver sem nennti að lesa sig í gegnum þetta.
Næsta færsla verður af ferð sem ég fór í júlí, þar veiddum við Litluá, Múlatorfu, Staðatorfu, Efra Hraun og Syðra Fjall. Þar mun ég stikla á stóru enda þessi færsla orðin alltof löng.

Leave a comment