Veiði á íslenskum samfélagsmiðlum (uppfært)

Þessi pistill verður dálítið frábrugðinn öðrum en þar sem að veiðitímabilið nálgast óðfluga að þá datt mér í hug að kynna fyrir ykkur einstaklinga sem að gera veiðitengt efni á samfélagsmiðlunum. Ég biðst afsökunar ef ég er að gleyma einhverjum en ég gaf nokkra sénsa til þess að hafa samband við mig ef þið vilduð að ykkar miðlar kæmu hérna fram.

Ég ákvað að skrifa þennan pistil með tvennt í huga. 1) Aðstoða þá sem eru að gera veiðitengt efni að koma sér á framfæri. 2) Að þeir sem vilja komast yfir sem mest veiðitengt efni að þeir geti þá fylgt þessum aðilum og þannig haft nóg að horfa á yfir veiðitímabilið.

Ef þið addið þessum aðilum á samfélagsmiðlana ykkar að þá ættuð þið að hafa nóg að veiðitengdu efni til þess að horfa á.

Maddi Catch

Hvaða svæði á að veiða í sumar? Ég mun halda áfram að gera norðurlandinu góð skil ásamt því að stefnan er að fara á ný svæði. Ef Covid-19 grípur ekki inn í að þá mun ég verða við veiðar 1-4.apríl þannig það verður byrjað strax með látum. Svæði sem ég mun stunda eru: Eyjafjarðará, Ólafsfjarðará, Mýrarkvísl, Presthvammur, Staðatorfa, Múlatorfa, Efra og Neðra Hraun, Syðra fjall, Árbót, Sandá og Lónsá. Það eru enn að bætast við ný svæði fyrir sumarið þannig það stefnir í spennandi sumar. Ég mun einnig halda áfram með námskeiðin “lærðu á ánna” sem urðu mjög vinsæl seinasta sumar.

Snapchat: icemaddicatch

Instagram: icemaddicatch

Facebook: maddicatch

Youtube: maddicatch

 

Villimenn

Hvaða svæði á að veiða í sumar? Í stuttu spjalli sem ég átti við Villimenn sögðust þeir munu halda áfram að vera virkir á Snapchat og Instagram en ætluðu samt að færa sig meira út í að vera með vlog á youtube um veiði. Þau svæði sem þeir reiknuðu með að fara á voru: Tungufljót í Skaftafellssýslu, Eldvatn, Leirvogsá, Varmá, Kárastaðir, Villingavatnsárós, Ósasvæði Hítarár, Kaldakvísl, Skagaheiði, vatnasvæði lýsu og Tungnaá.

Facebook: Villimenn

Instagram: Villimenn

Snapchat: Villimenn

Youtube: Villimenn

 

Dagbók Urriða

Hvað má fólk búast við að sjá á miðlunum?
Þegar ég spurðist fyrir hvað væri á döfinni hjá Dagbók Urriða að þá fékk ég þetta svar. “Ég ætla að gera litla veiðiþætti þar sem ég skoða hluti og svæði sem mig langar að vita meira um. Allskonar bland af ferðalögum, fluguveiði, sagnfræði og kennslu en það er of snemmt að gefa upp hvaða svæði það verða”.
Facebook: Dagbók Urriða

Snapchat: Dagbokurrida

Youtube: Dagbók Urriða

 

Raggidanner

Hvaða svæði á að veiða í sumar?

Raggi er flinkur hnýtari og duglegur að sýna frá flugunum sem hann hnýtir. Hann stefnir á að vera mikið á þingvöllum og jafnvel skella sér í laxveiði í sumar. Þegar líður að hausti verður stang og skotveiði í bland á instagraminu.

Instagram: Raggidanner

 

Iceland_flyfishing87

Hvaða svæði á að veiða í sumar?

Áherslan verður mikil á þjóðgarðinn á Þingvöllum og geldingartjörnina. Einnig er vatnasvæði Lýsu og Varmá á stefnuskránni. Markmiðið er síðan að prufa mikið að nýjum svæðum og skella sér meðal annars í túr norður og ekki ólíklegt að Iceland_flyfishing87 og Maddi Catch munu leiða saman hesta sína í sumar.

Instagram: Iceland_flyfishing87

 

Icelandic_troutbum

Hvaða svæði á að veiða í sumar?

Veiðir mikið á Þingvallavatni og notast oft við Belly boat þegar hann veiðir. Önnur svæði sem hann reiknar með að veiða eru: Skagaheiði, Úlfljótsvatn, Brúará, Melrakkasléttu, Laxá, Brunná, Köldukvísl, Tungnaá og Tungufljót.

Instagram: Icelandic_troutbum

Blogg: icelandictroutbum.wordpress.com

 

Veididrengurinn

Hvaða svæði á að veiða í sumar?

Veiðidrengurinn er ungur drengur sem er að byrja með veiðiefni á samfélagsmiðlum og hvet ég alla til að bæta honum á listan sinn. Þau svæði sem hann reiknar með að fara á eru: Eyjafjarðará, Hörgá, Svarfaðardalsá, Ólafsfjarðará, Svartá í Skagafyrði, Ljósavatn, Efra og Neðra Hraun og líklega fleiri urriðasvæði í Laxá í Aðaldal.

Snapchat: veididrengurinn

Instagram: veididrengurinn

 

jakobsindri

Hvaða svæði á að veiða í sumar?

Mjög virkur veiðimaður og margt framundan hjá honum. Hann hefur einnig verið að gefa út efni á youtube og hvet ég alla til að skoða það. Þau svæði sem Jakob ætlar að stunda á tímabilinu eru: Þingvallavatn, Úlfljótsvatn, Elliðavatn, Hraunsfjörður, Baulárvallarvatn, Ljósavatn, Laxá í Mývatnsveit, Staðartorfa, Arnarvatnsá, Ytri Rangá (urriðasvæði), Þverá í Haukadal og Litlaá.

Instagram: jakobsindri

Youtube: Jakobsindri

 

Highlandtroutfishing

Hvaða svæði á að veiða í sumar?

Highlandtroutfishing er aðeins öðruvísi en aðrir sem eru að gera veiðitengt efni á samfélagsmiðlum. Hann er mikið upp á heiðum að kanna ný svæði og oft er hann að veiða svæði sem enginn er að veiða. Mjög áhugavert efni sem kemur frá honum. Þau svæði sem hann ætlar að stunda á tímabilinu eru: Hlíðarvatn, Þingvallavatn, Kaldakvísl, Tungnaá, Hólmá, Varmá, Arnavatnsheiði og Skagaheiði.

Instagram: Highlandtroutfishing

 

Ariflyfish

Hvaða svæði á að veiða í sumar?

Veiðimaður og Guide. Ari er virkur veiðimaður og oft að veiða á spennandi svæðum eins og Köldukvísl, Þingvallavatni, Varmaá, Litlaá, Laxá, Brúará, Holaá, Arnarvatnsheiði, Skagaheiði, Grímstunguheiði, Tungufljót, Eldvatn og Ytri Rangá (Urriðasvæði).

Instagram: Ariflyfish

 

Flyfishing_iceland

Hvaða svæði á að veiða í sumar?

Þessi drengur er að austan og sá eini þaðan í þessari upptalningu. Því er vert að bæta honum á samfélagsmiðlana til að fá fréttir af austurlandinu. Þau svæði sem hann reiknar með að stunda á tímabilinu eru: Brunná, Lónsá, Múlatorfa, Staðartorfa, Keldúá og Selfljót. Einnig verður veitt í vötnunum fyrir austan.

Instagram: flyfishing_iceland

 

Silli kokkur

Silli kokkur er virkur á samfélagsmiðlum  og sinnir Skot, stangveiði og eldamennska.

Instagram: sigvaldij

Snapchat: sillikokkur

Youtube: Silli Kokkur

 

Flugucastið

Podcast um veiði. Þegar þetta er skrifað eru komnir 34 þættir frá þeim félögum. Ég mæli eindregið með því að ef þú lesandi góður hefur ekki hlustað á þessa þætti að þá gerir þú það og getur ýtt á linkin hér fyrir neðan við soundcloud.

Instagram: flugucastid_

Soundcloud: Flugucastid

 

Veiðisnappið

Nýtt veiðisnapp sem er byggt á “take over” þá koma gestasnapparar og taka yfir snappið. Þar að leiðandi verður efnið inn á snappinu fjölbreytt og vonandi skemmtilegt. Þeir sem hafa áhuga á að vera með veiðisnappið geta sent tölvupóst á veidisnappid@hotmail.com og óskað eftir dagsetningum eða haft samband við mig á facebook, instagram eða snapchat.

Snapchat: veidisnappid

 

Guide Mike

Hvaða svæði á að veiða í sumar?

Hólaá, Þingvellir, Úlfljotsvatn, Eyrarvatn, Þórisstaðavatn, Geitabergsvatn, Hraunsfjörður, Bauluvallavatn, Arnarvatnsheiði norðan og sunnan ásamt Skagaheiði.

Snapchat: mikki55

Ég vil koma á framfæri að þetta er í raun bara örkynning á þeim sem eru að gera veiðitengt. Það var sameiginlegt með öllum viðmælendum að sumarið var enn í mótun og því eiga fleiri svæði eftir að bætast við þennan lista sem var gefin út núna.

Nú styttist heldur betur í tímabilið. Ég vona að allir eigi gott veiðitímabil og fari varlega á meðan þetta ástand gengur yfir með þennan blessaða vírus. Ég held að við ættum öll að taka þetta alvarlega og vera skynsöm.

Takk fyrir mig.

 

Þurrfluguveiði

Þurrfluguveiði eða dry fly fishing.

61978448_556898081504752_9004395220917288960_n

Hvað er hægt að segja. Fyrir mér er ekkert betra en yfirborðsveiði. Ég hef oft á tíðum sagt það á snappinu að ég vil frekar fá einn fisk á þurrflugu en tíu fiska á púpu. Því reyni ég oft að veiða á þurrflugu í ekkert sérstökum aðstæðum og enda á að fá ekkert.

Löngunin að sjá fiskinn koma upp á yfirborðið og taka fluguna er oft sterkari en skynsemin sem segir þér hvaða aðferð er best að beita hverju sinni. Kannast ekki fleiri við þetta?

En hvað skal hafa í huga þegar á að veiða á þurrflugu?

Stöngin: Ég ætla ekki að fara djúpt í búnaðinn því misjafn er smekkur manna og því ekki allir á sama máli. Ég tel samt að flestir sem veiða á þurrflugu vilji veiða með mjúkri eða millistífri stöng. Mjúkar stangir eru vinsælar hjá erlendum veiðimönnum enda veiða þeir oft í logni og ekki óalgengt að það séu tré og jafnvel skógur sem gefur skjól þar sem þeir veiða. Við íslendingar erum yfirleitt ekki svo heppnir og því er oft á tíðum erfitt að veiða með mjög mjúkri stöng. Því myndi ég mæla með stöng sem er meðal stíf því hún ræður við það ef það kemur léttur andvari.

Taumurinn: Í þurrfluguveiði skiptir framsetning/presentation flugunnar öllu máli. Svo að flugan leggist sem best á vatnið er mikilvægt að taumurinn sé frammjókkandi. Hægt er að kaupa frammjókkandi tauma og kosta þeir töluvert meira en venjulegt taumefni. Einnig er hægt að búa sjálfur til frammjókkandi taum úr því taumefni sem þú átt. Hægt er að byrja efst með bút úr 1 eða 2x, síðan taka bút úr 3x og síðan enda á 4 eða 5x. Fiskurinn er sterkur hér á landi og því ekki ráðlagt að fara niður fyrir 4x nema aðstæður séu erfiðar t.d. glampandi sól og fiskurinn taumstyggur.

Aðstæður: Margir halda að það þurfi að vera algjört blankalogn til að veiða á þurrflugu en svo er ekki raunin. Það fer að vísu mikið eftir svæðinu sem maður er að veiða á en yfirleitt er hægt að finna skjól þó það sé vindur t.d. ef það eru hólmar eða eyjar á svæðinu. Í skjólinu safnast oft saman skordýr og flugur þannig að fiskurinn getur oft lent í miklu fæðuframboði á þeim stöðum. Dæmi um svoleiðis skilyrði eiga sér oft stað í Laxá í Aðaldal. Á silungasvæðunum fyrir neðan stíflu eru oft hólmar og eyjar og þar myndast oft góðar aðstæður til þurrfluguveiða þrátt fyrir að það sé vindur.

Er fiskurinn að vaka?: Það eykur líkurnar þínar töluvert ef þú sérð fisk vera vaka. Auðvitað er hægt að fá fisk til að koma upp í þurrflugu þó maður hafi ekki séð neitt en líkurnar eru ekki með manni í liði. Ef að ég sé engan fisk vaka og lítið af flugu á yfirborðinu þá set ég yfirleitt stóra þurrflugu undir. Oft snýst þetta um einfalda stærðfræði. Fiskurinn verður að telja sig vera græða á því að eltast við fluguna. Ef fiskurinn er að græða meiri næringu en orkunni sem hann eyðir í að fara á eftir flugunni þá er ekki útilokað að hann láti til skara skríða.  Margir reyndir veiðimenn hafa sagt mér að þegar þú leitar af fiski sem er að vaka þá kastarðu aldrei á fisk sem hefur vakað aðeins einu sinni. Þú vilt bíða og kasta á fisk sem hefur komið upp eftir flugu á sama stað tvisvar eða oftar. Sá fiskur er líklega búinn að koma sér í góða stöðu og búinn að finna fæðu-línu sem ber til hans mikið æti. Sá fiskur er líklegri til að taka fluguna þína heldur en fiskur sem kom upp einu sinni og svo ekki meir.

Lognið á eftir storminum: Nei ég er ekki að ruglast. Oft myndast ótrúlegar aðstæður til þurrfluguveiði eftir að það lægir eftir hvassviðri. Yfirleitt er yfirborð vatnsins loðið af allskonar skordýrum sem annað hvort fauk á yfirborðið eða settist á það í leit að skjóli. Ég hef sjálfur lent í þessu. Ég var með félaga mínum frá Írlandi við veiðar á Efra-Hrauni fyrir nokkrum árum síðan. Veður var vont framan af degi og í raun svo hvasst að við fórum ekkert út á morgunvaktinni. Þegar farið er að líða á seinni vaktina fer vindinn að lægja og er vindur orðinn þokkalega hægur um kl. 18:00. Við hendumst þá út og keyrum niður á Hraun. Það var rólegt fyrsta klukkutímann en við sáum samt að það var gríðarlega mikið æti á ánni eftir rokið. Þegar klukkan var orðin rúmlega 19 þá var eins og einhver hefði bara ýtt á takka því það fór gjörsamlega allt í gang og fiskur vakandi út um allt. Lentum við félagarnir í ævintýranlegum tveimur tímum þar sem við lönduðum hverjum fisknum á fætur öðrum á þurrflugu.

Náttúran og fluguval: Mikilvægt er að vera meðvitaður um það hvað er að gerast í náttúrunni þegar verið er að velja flugur. Góð regla er að skoða yfirborð vatnsins, velta steinum til að sjá hvað kemur undan o.s.frv. Það er hægt að setja þurrflugur í marga flokka en ég ætla flokka þá í tvo megin flokka og þeir eru yfirborðsflugur og emerger sem ég hef ekki góða íslenska þýðingu á. Yfirborðsflugurnar fljóta allar á yfirborðinu á meðan emerger er fluga sem er að hluta til undir yfirborðinu en hinn hlutinn flýtur. Til að taka dæmi um emerger má t.d. nefna klinkhammer sem er líklega ein vinsælasta þurrflugan í dag.

Það er endalaust hægt að tala um þurrfluguveiði. En þegar ég var að undirbúa mig að skrifa þessa grein þá rakst ég á alveg magnað myndband um þurrfluguveiði sem segir í rauninni allt sem segja þarf um þurrfluguveiði.

Til að horfa á þetta frábæra myndband um þurrfluguveiði smellið hér

Uppáhalds svæðin mín til að veiða á þurrflugu eru: Lónsá á Langanesi, Presthvammur, Staðartorfa, Múlatorfa og Efra-Hraun.

Hér eru 2 myndir af fiskum sem ég náði á þurrflugu í Lónsá.

82210418_722464174948141_8926318260278788096_o83506448_722464111614814_1063538055446528000_o

Fyrir þá sem vilja geta séð veiðitengt efni á samfélagsmiðlum strax 1. apríl þá getið þið fylgst með miðlunum mínum en ég mun hefja veiðar strax og veiðitímabilið byrjar.

Einnig eru fleiri gjafaleikir á næstunni. Ég á eftir að gefa flugubox frá Veiðiríknu og einnig eitt Stirðu box eftir Marinó. Einnig ætla ég sjálfur að gefa flugubox með flugum sem ég hef pantað frá Kenya ásamt því að ég mun gefa veiðileyfi þegar nær dregur veiðitímabili.

Ef þú ert með vöru eða veiðisvæði sem þú villt koma á framfæri að þá ekki hika að hafa sambandi.

Votfluguveiði – Hvað hafa ber í huga.

Ég vil byrja á því að þakka fyrir góðar undirtektir á seinustu færslu hjá mér. Að fá svona góð viðbrögð gefur manni ástæðu til að setjast niður við tölvuna og skrifa.

En vindum okkur að málefni dagsins. Eftir seinasta póst um uppáhalds flugurnar mínar fékk ég nokkuð mikið af spurningum hvernig ég veiði með votflugum. Ég svaraði nokkrum fyrirspurnum en ákvað svo bara að skrifa smá grein um þetta þannig að fleiri geta nýtt sér og vonandi notað nýja veiðiaðferð í sumar 🙂

En hvað á að hafa í huga þegar veitt er með votflugum?

Búnaður: Ég mæli með 9 – 9.6 feta stöng fyrir línu 4-6. Mér finnst gott að vera með nettar græjur í svona veiði og þú þarft ákveðna mýkt. Sérstaklega þegar verið er að veiða í smærri ám.

Flugur og taumur: Eins og kom fram í fyrri pistli að þá veiði ég yfirleitt á 2-3 votflugur. Ég ætla fara yfir tvær aðferðir til að tengja flugurnar saman. Fyrsta aðferðin er að hnýta í öngulinn á flugunni. Á myndinni hér fyrir neðan er sýnt hvernig hnýtt er frá öngli og í aðra flugu. Bilið sem þeir segja á myndinni er 12-20 inches en ég er ekkert endilega sammála því. Ég hef oft notað minna bil og þá sérstaklega ef ég er að veiða í litlum ám.

Screen-Shot-2017-11-16-at-8.10.59-AM-617x420.png

Hin leiðin er að hnýta dropper. Til eru margar aðferðir til að hnýta dropper á og ætla ég ekki að fara í það hver sé besta aðferðin en hér fyrir neðan er hægt að finna eina leið til að gera það. Eflaust eru til betri leiðir en þið getið þá skoðað Youtube eða Google og fundið fleiri aðferðir.

Hvernig hnýta á dropper

Þegar velja á flugurnar í verkið eru nokkur atriði til að hugsa um.

  1. Skoðaðu hvað er að gerast í náttúrunni. Sérðu eitthvað klekjast undir yfirborðinu? Hvað er fiskurinn að éta?
  2. Stærð á flugunum. Ég veiði alltaf með mismunandi stærðum á flugum. Ef þú ert með sömu stærð á öllum flugum þá ertu að takmarka þig að einhverju leyti. Það er gott að veiða með mismunandi stærðum til að sjá hvað fiskurinn vill.
  3. Mér finnst oft jarðlitirnir góðir þegar kemur að votflugum. Ef ég veiði með tveim flugum þá byrja ég yfirleitt með tvær jarðlitaðar (svart, grátt, brúnt o.s.frv.). Ég hef minni fluguna framar og þá stærri á endanum. Ef lítil viðbrögð koma á þessar tvær og kannski ekkert gerist eftir að ég skipti tvisvar eða þrisvar um flugu þá bæti ég þriðju flugunni við og þá hef ég hana yfirleitt frábrugðna hinum. Sú fluga er þá með flash eða einhverju áberandi og er hún notuð til að fanga athygli fisksins á annan hátt en hinar flugurnar gera. Ef ég hinsvegar byrja með þrjár flugur þá nota ég tvær jarðlitaðar og eina allt öðruvísi sem er áberandi með silfur, flash eða eitthvað annað sem fangar athygli fisksins.

Aðstæður: Einu sinni las ég að í 90% tilvika er fiskurinn að éta undir yfirborðinu. Það borgar sig því að geta beitt öllum tiltækum aðferðum til að egna fyrir fisk undir yfirborðinu. Oft á tíðum sjáum við fisk taka “head & tail” eða að hann étur rétt undir yfirborðinu að þá sér maður oft glitta í bakið á fiskunum. Mín reynsla er sú að það eru kjöraðstæður fyrir votflugur.

Tæknin:

1.Ávallt byrja að taka stutt köst og lengja svo í. Þetta á í rauninni við um alla veiði. Við erum gjörn á að byrja að vaða lengst út í á og negla svo flugunni lengst út í. Ég veit ekki hvað maður hefur fengið marga fiska bara rétt upp við bakkann. Einnig ef þú vilt komast út í miðja á, veiddu þig þá þangað með stuttum köstum sem byrja frá bakkanum og veiddu þig síðan út í miðju.

2. Við viljum hafa köstin 45 gráður niður fyrir okkur og stöngina alltaf niðri eftir kastið. Myndin sýnir hvernig við byrjum að kasta og hvernig við “mendum” upp til að fá sem náttúrulegasta rekið.

beyondtheswing_2.jpg

3. Þegar búið er að kasta þá kemur að mikilvægasta þættinum í votfluguveiði að mínu mati. Línustjórnun skiptir gríðarlegu máli þegar kemur að votfluguveiði. Eftir að búið er að kasta snýst allt um að flugan fái sem náttúrulegasta rekið og ferðist um á hraða straumsins. Ef það kemur of mikil bugt á línuna að þá fer línan að taka á sig of mikið vatn sem leiðir til þess að flugan fer of hratt. Því er lykillinn í votfluguveiði að stjórna línunni með því að “menda” þannig að rekið verði náttúrulegt.

Hér er frábært myndband um línustjórnun

4. Mikilvægt er að línan sé ávallt bein. Þegar þú “mendar” til að taka belg af línunni er mikilvægt að þú sért með línuna beina og engan slaka því þú þarft alltaf að vera í tengingu við fluguna. Tökurnar geta oft verið grannar og ef þú ert ekki alltaf með tengingu við fluguna þá eru góðar líkur á að þú missir af tökunni.

5. Eftir að flugan hefur tekið fullt rek (swing) er mikilvægt að bíða aðeins. Gott er að leyfa henni að dingla í 2-3 sekúndur áður en kastað er aftur. Í votfluguveiði er lítið sem ekkert “strip” (inndráttur á línu). Flestir taka nokkuð þægileg köst og láta reka niður fyrir sig, bíða aðeins og kasta svo aftur. Mér persónulega finnst best að kasta og þegar flugan er komin niður fyrir mig þá bíð ég 2-3 sekúndur, tek svo 2-3 lítil “strip” og kasta svo.

Í votfluguveiði tekur fiskurinn lang oftast á rekinu en ég næ oft að slíta einn og einn fisk á þessum stuttu “strippum” í restina.

Þetta er svona það helsta sem mér finnst fólk þurfa að hafa í huga þegar kemur að votfluguveiði. Það er endalaus fróðleikur á internetinu og hvet ég þá sem hafa áhuga á að verða sér úti um frekari fróðleik.

Hér eru svo tvö ágætis myndbönd um votfluguveiði.

Byrjenda myndband í votfluguveiði

Votfluguveiði

Ef ykkur líkaði greinin, endilega hendið í like á greinina og ekki væri verra ef þið mynduð deila henni því það hvetur mann bara enn frekar til að gera veiðitengt efni ef undirtektirnar eru góðar.

Takk fyrir mig.