Votfluguveiði – Hvað hafa ber í huga.

Ég vil byrja á því að þakka fyrir góðar undirtektir á seinustu færslu hjá mér. Að fá svona góð viðbrögð gefur manni ástæðu til að setjast niður við tölvuna og skrifa.

En vindum okkur að málefni dagsins. Eftir seinasta póst um uppáhalds flugurnar mínar fékk ég nokkuð mikið af spurningum hvernig ég veiði með votflugum. Ég svaraði nokkrum fyrirspurnum en ákvað svo bara að skrifa smá grein um þetta þannig að fleiri geta nýtt sér og vonandi notað nýja veiðiaðferð í sumar 🙂

En hvað á að hafa í huga þegar veitt er með votflugum?

Búnaður: Ég mæli með 9 – 9.6 feta stöng fyrir línu 4-6. Mér finnst gott að vera með nettar græjur í svona veiði og þú þarft ákveðna mýkt. Sérstaklega þegar verið er að veiða í smærri ám.

Flugur og taumur: Eins og kom fram í fyrri pistli að þá veiði ég yfirleitt á 2-3 votflugur. Ég ætla fara yfir tvær aðferðir til að tengja flugurnar saman. Fyrsta aðferðin er að hnýta í öngulinn á flugunni. Á myndinni hér fyrir neðan er sýnt hvernig hnýtt er frá öngli og í aðra flugu. Bilið sem þeir segja á myndinni er 12-20 inches en ég er ekkert endilega sammála því. Ég hef oft notað minna bil og þá sérstaklega ef ég er að veiða í litlum ám.

Screen-Shot-2017-11-16-at-8.10.59-AM-617x420.png

Hin leiðin er að hnýta dropper. Til eru margar aðferðir til að hnýta dropper á og ætla ég ekki að fara í það hver sé besta aðferðin en hér fyrir neðan er hægt að finna eina leið til að gera það. Eflaust eru til betri leiðir en þið getið þá skoðað Youtube eða Google og fundið fleiri aðferðir.

Hvernig hnýta á dropper

Þegar velja á flugurnar í verkið eru nokkur atriði til að hugsa um.

  1. Skoðaðu hvað er að gerast í náttúrunni. Sérðu eitthvað klekjast undir yfirborðinu? Hvað er fiskurinn að éta?
  2. Stærð á flugunum. Ég veiði alltaf með mismunandi stærðum á flugum. Ef þú ert með sömu stærð á öllum flugum þá ertu að takmarka þig að einhverju leyti. Það er gott að veiða með mismunandi stærðum til að sjá hvað fiskurinn vill.
  3. Mér finnst oft jarðlitirnir góðir þegar kemur að votflugum. Ef ég veiði með tveim flugum þá byrja ég yfirleitt með tvær jarðlitaðar (svart, grátt, brúnt o.s.frv.). Ég hef minni fluguna framar og þá stærri á endanum. Ef lítil viðbrögð koma á þessar tvær og kannski ekkert gerist eftir að ég skipti tvisvar eða þrisvar um flugu þá bæti ég þriðju flugunni við og þá hef ég hana yfirleitt frábrugðna hinum. Sú fluga er þá með flash eða einhverju áberandi og er hún notuð til að fanga athygli fisksins á annan hátt en hinar flugurnar gera. Ef ég hinsvegar byrja með þrjár flugur þá nota ég tvær jarðlitaðar og eina allt öðruvísi sem er áberandi með silfur, flash eða eitthvað annað sem fangar athygli fisksins.

Aðstæður: Einu sinni las ég að í 90% tilvika er fiskurinn að éta undir yfirborðinu. Það borgar sig því að geta beitt öllum tiltækum aðferðum til að egna fyrir fisk undir yfirborðinu. Oft á tíðum sjáum við fisk taka “head & tail” eða að hann étur rétt undir yfirborðinu að þá sér maður oft glitta í bakið á fiskunum. Mín reynsla er sú að það eru kjöraðstæður fyrir votflugur.

Tæknin:

1.Ávallt byrja að taka stutt köst og lengja svo í. Þetta á í rauninni við um alla veiði. Við erum gjörn á að byrja að vaða lengst út í á og negla svo flugunni lengst út í. Ég veit ekki hvað maður hefur fengið marga fiska bara rétt upp við bakkann. Einnig ef þú vilt komast út í miðja á, veiddu þig þá þangað með stuttum köstum sem byrja frá bakkanum og veiddu þig síðan út í miðju.

2. Við viljum hafa köstin 45 gráður niður fyrir okkur og stöngina alltaf niðri eftir kastið. Myndin sýnir hvernig við byrjum að kasta og hvernig við “mendum” upp til að fá sem náttúrulegasta rekið.

beyondtheswing_2.jpg

3. Þegar búið er að kasta þá kemur að mikilvægasta þættinum í votfluguveiði að mínu mati. Línustjórnun skiptir gríðarlegu máli þegar kemur að votfluguveiði. Eftir að búið er að kasta snýst allt um að flugan fái sem náttúrulegasta rekið og ferðist um á hraða straumsins. Ef það kemur of mikil bugt á línuna að þá fer línan að taka á sig of mikið vatn sem leiðir til þess að flugan fer of hratt. Því er lykillinn í votfluguveiði að stjórna línunni með því að “menda” þannig að rekið verði náttúrulegt.

Hér er frábært myndband um línustjórnun

4. Mikilvægt er að línan sé ávallt bein. Þegar þú “mendar” til að taka belg af línunni er mikilvægt að þú sért með línuna beina og engan slaka því þú þarft alltaf að vera í tengingu við fluguna. Tökurnar geta oft verið grannar og ef þú ert ekki alltaf með tengingu við fluguna þá eru góðar líkur á að þú missir af tökunni.

5. Eftir að flugan hefur tekið fullt rek (swing) er mikilvægt að bíða aðeins. Gott er að leyfa henni að dingla í 2-3 sekúndur áður en kastað er aftur. Í votfluguveiði er lítið sem ekkert “strip” (inndráttur á línu). Flestir taka nokkuð þægileg köst og láta reka niður fyrir sig, bíða aðeins og kasta svo aftur. Mér persónulega finnst best að kasta og þegar flugan er komin niður fyrir mig þá bíð ég 2-3 sekúndur, tek svo 2-3 lítil “strip” og kasta svo.

Í votfluguveiði tekur fiskurinn lang oftast á rekinu en ég næ oft að slíta einn og einn fisk á þessum stuttu “strippum” í restina.

Þetta er svona það helsta sem mér finnst fólk þurfa að hafa í huga þegar kemur að votfluguveiði. Það er endalaus fróðleikur á internetinu og hvet ég þá sem hafa áhuga á að verða sér úti um frekari fróðleik.

Hér eru svo tvö ágætis myndbönd um votfluguveiði.

Byrjenda myndband í votfluguveiði

Votfluguveiði

Ef ykkur líkaði greinin, endilega hendið í like á greinina og ekki væri verra ef þið mynduð deila henni því það hvetur mann bara enn frekar til að gera veiðitengt efni ef undirtektirnar eru góðar.

Takk fyrir mig.

 

Leave a comment