Andstreymis veiði

Þá er komið að líklega því efni sem flestir hafa óskað eftir. Mikið af fólki hefur beðið mig að skrifa um andstreymis veiði eða “upstream” og þá með tilliti til púpuveiði “nymphing”. Ég held að margir séu sammála mér þegar ég segi að andstreymis veiði er líklega sú gjöfulasta. Það varð þvílíka sprengjan þegar þessi aðferð kom fyrst til landsins og flestir veiðimenn fóru að veiða betur og meira.

Þegar ég fór að kafa ofan í efnið til að undirbúa mig fyrir skrifin þá áttaði ég mig fljótlega á því að ég væri aldrei að fara geta skrifað mjög ýtarlega um andstreymis veiði. Það eru til svo margar aðferðir að það hálfa væri nóg og því mun ég aðeins stikla á stóru og einfalda hlutina mjög mikið.

1-2 púpur og tökuvari:

Ég myndi segja að algengasta andstreymis aðferðin hér á íslandi sé þessi klassíska 1-2 púpur og tökuvari. Ég byrjaði allavega þannig að veiða andstreymis og sé flesta gera það þannig. En hvað er það sem hafa ber í huga við þessa aðferð?

Það eru nokkur atriði sem hafa ber í huga.

Taumlengdin, taumefnið, lengd frá púpu og upp í tökuvarann og stærð og þyngd á púpunum sem eru undir.

Taumlengd: Það skiptir máli að vera með nógu langan taum. Í tékknesku aðferðinni er yfirleitt notaður langur taumur og stutt köst. Þá er reynt að láta línuna ekki fara á vatnsyfirborðið til að hafa sem minnstu áhrif á vatnið. Þó margir tileinki sér þessa aðferð hér heima þá sér maður mjög marga taka virkilega löng köst þannig að það fyrsta sem fiskurinn sér er flugulínan en ekki flugan. Það er mjög misjafnt hvað menn vilja vera vinna með langan taum en það góða við tökuvarann er að þú getur stillt lengdina frá púpu og upp í tökuvara eftir aðstæðum.

Taumefnið: Mér finnst mjög gott að nota fram-mjókkandi tauma eða skeyta taumum saman. Þá er maður með sterkari tauminn efst og svo nettari taum fyrir neðan. Það sem þetta gerir er að taumurinn er mýkri í hreyfingu og leggst betur þegar hann skellur á yfirborði vatnsins.

Lengd frá púpu og í tökuvarann: Þetta er líklega eitt það mikilvægasta þegar við notum tökuvara. Sé bilið of stutt komast púpurnar aldrei niður á botn og ef bilið er of langt er líklegt að við missum af mörgum tökum því það er svo mikill slaki á taumnum undir yfirborðinu. Mikilvægt er að vera með rétta lengt svo svo púpurnar nái til botns og að tökuvarinn sökkvi strax og fiskur tekur púpuna. Til eru ótal tegundir af tökuvörum og misjafnt hvað mönnum finnst. Eitt er þó mikilvægt að hafa í huga þegar verið er að veiða nettar og viðkvæmar ár og það er að tökuvarinn hafi sem minnstu áhrifin á yfirborðið. Hér er mynd af nokkrum tökvörum sem dæmi.

Stærð og þyngd flugunnar sem er undir: Þetta skiptir jafn miklu máli og lengd púpunar frá tökuvara. Ef púpan/púpurnar eru of léttar þá eru þær ekki að ná til botns áður en þær koma að fisknum. Því er oft vinsælt, sérstaklega hér norðanlands að veiða með stórum og mjög þungum púpum og má þar nefna sérstaklega flugurnar hans Sveins Þórs. Þær eru alveg einstaklega þungar og því byrja þær nánast að veiða strax og þær koma í vatnið. Ég veiði ávallt með tvær mismunandi stærðir af flugum. Við þekkjum öll að stundum er ekkert að ganga en síðan förum við í minni flugu og þá fer allt að gerast.

Mér finnst best að nota þessa aðferð ef vatnið er hratt og jafnvel mjög djúpt. Í hröðu og jafnvel ólgandi vatni er mikilvægt að hafa góðan tökuvara sem flýtur sama hvað.

Euro nymphing: Munurinn á þessari aðferð og þeirri sem ég fjallaði um fyrir ofan er að það er ekki notaður tökuvari og þú ert ekki að kasta flugulínunni þinni. Margir ganga svo langt að hafa ekki flugulínu einu sinni á hjólinu heldur búa til mjög langan taum með því að skeita saman taumefni. Sama aðferð er notuð og talað var um áðan s.s. sterkasta og þykkasta taumefnið efst og síðan fer það minnkandi og endar á fíngerðasta taumefninu. Allt er þetta gert til að hafa eins lítil áhrif á vatnið og mögulegt er. Ég beitti þessari aðferð í fyrsta skipti seinasta sumar og fannst mér það æðislegt. Mér hefur alltaf fundist hálf leiðinlegt að veiða með tökuvara því þú ert bara bíða eftir að einhver tökuvari stoppi eða fari niður og þá bregður þú við. En í Euro nymphing þá þarftu að virkja skilningarvitin þín. Þú þarft að halda þvílíkri einbeitingu og fylgjast með ef það kemur minnsta hökt eða högg á tauminn á meðan þú fylgir honum niður strauminn.

Ég notaði þessa aðferð í Lónsá í fyrra. Áin er vel til þess fallin að nota Euro nymphing þar sem hún er lítil, nett og viðkvæm. Ég gat komist mjög nálægt fisknum og ég var aldrei að styggja hylinn með köstunum mínum þar sem ég notaði engan tökuvara og frekar nettar flugur. Ég notaði 15 feta fram-mjókkandi taum frá Guideline og það var alveg nóg því ekki var nauðsynlegt að kasta langt. Yfirleitt sá ég fiskinn fyrir framan mig og ég þurfti bara að koma flugunni fyrir framan hann og fylgjast með hvort ég fengi einhver viðbrögð. Ég held að árangurinn hefði ekki verið eins góður hefði ég verið með styttri taum og jafnvel tökuvara þannig að bæði flugulínan og tökuvarinn væru að fara yfir fiskinn.

New Zealand dropper: Þessa aðferð nota ég töluvert. Þegar ég var að byrja í minni fluguveiði þá lærði ég að veiða andstreymis á hefðbundinn máta með tökuvara. Einn daginn sá ég hinsvegar mann vera veiða. Hann veiddi andstreymis en þó ekki með tökuvara. Í stað tökuvarans notaði hann þurrflugu.

Image result for new zealand dropper

Ég hugsaði strax að þetta væri mun skynsamlegra heldur en að nota tökuvara því þarna gæti ég verið að veiða bæði yfirborðið og svo á botninum. Þessi aðferð er þó ekki gallalaus og á alls ekkert alltaf við. T.d. í mjög hröðu vatni þar sem þurrfluga ætti erfitt með að haldast á floti eða ef dýpið er það mikið að þú þyrftir að nota tvær mjög þyngdar púpur. Þá er erfitt að finna góða þurrflugu sem getur flotið með slíka þyngt hangandi neðan í sér. Einnig er mikilvægt að þurrflugan sem notuð er sjáist vel því hún er jú tökuvarinn þinn ef fiskurinn ákveður að taka púpuna. Þannig að þetta er ekkert alltaf hentug aðferð. En þessa aðferð nota ég mikið ef það er gott veður og vatnið þokkalega þægilegt. Ef maður er að sjá stöku uppítökur en telur þó að líklegast sé að fiskurinn sé að taka púpurnar þá er þetta góð aðferð að beita því þú veist aldrei nema fiskurinn taki þurrfluguna. Hversu oft hafið þið fengið fisk til að koma í tökuvarann? Þá hefði verið gott að hafa þurrflugu í stað tökuvara.

Niðurstaðan er sú að allar aðferðirnar hafa sýna kosti og galla og skal þeim beitt miðað við hvað hentar best hverju sinni. .

Eins og ég sagði þá eru til margar aðferðir í viðbót t.d. pólska, tékkneska, franska og spænska aðferðin. Það var of tímafrekt að gera öllum þessum aðferðum skil og því aðeins stiklað á stóru eins og áður sagði.

Hins vegar fyrir þá sem vilja kafa enn dýpra og skoða t.d. fleiri evrópskar aðferðir að þá mæli ég með þessari síðu hérna.

Evrópskar andstreymis aðferðir 

Einnig er hægt að finna myndbönd sem gefa þessum aðferðum ágætis skil.

Tékkneska aðferðin

Euro nymphing

Dry and dropper

Vonandi hefur einhver gagn af því að lesa þetta og getur tileinkað sér nýja veiðiaðferð á komandi sumri. Maður tapar allavega aldrei á því að hafa fleiri vopn í vopnabúrinu sínu.

Ef einhverjum langar að fylgja mér á samfélagsmiðlum til að sjá meira veiðitengt efni þá getið þið séð snapchatið mitt og instagram hér fyrir neðan. Ég mun byrja strax að sýna frá veiðiferð 1-4. apríl og það er ferð sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.

 

Leave a comment