Þurrfluguveiði

Þurrfluguveiði eða dry fly fishing.

61978448_556898081504752_9004395220917288960_n

Hvað er hægt að segja. Fyrir mér er ekkert betra en yfirborðsveiði. Ég hef oft á tíðum sagt það á snappinu að ég vil frekar fá einn fisk á þurrflugu en tíu fiska á púpu. Því reyni ég oft að veiða á þurrflugu í ekkert sérstökum aðstæðum og enda á að fá ekkert.

Löngunin að sjá fiskinn koma upp á yfirborðið og taka fluguna er oft sterkari en skynsemin sem segir þér hvaða aðferð er best að beita hverju sinni. Kannast ekki fleiri við þetta?

En hvað skal hafa í huga þegar á að veiða á þurrflugu?

Stöngin: Ég ætla ekki að fara djúpt í búnaðinn því misjafn er smekkur manna og því ekki allir á sama máli. Ég tel samt að flestir sem veiða á þurrflugu vilji veiða með mjúkri eða millistífri stöng. Mjúkar stangir eru vinsælar hjá erlendum veiðimönnum enda veiða þeir oft í logni og ekki óalgengt að það séu tré og jafnvel skógur sem gefur skjól þar sem þeir veiða. Við íslendingar erum yfirleitt ekki svo heppnir og því er oft á tíðum erfitt að veiða með mjög mjúkri stöng. Því myndi ég mæla með stöng sem er meðal stíf því hún ræður við það ef það kemur léttur andvari.

Taumurinn: Í þurrfluguveiði skiptir framsetning/presentation flugunnar öllu máli. Svo að flugan leggist sem best á vatnið er mikilvægt að taumurinn sé frammjókkandi. Hægt er að kaupa frammjókkandi tauma og kosta þeir töluvert meira en venjulegt taumefni. Einnig er hægt að búa sjálfur til frammjókkandi taum úr því taumefni sem þú átt. Hægt er að byrja efst með bút úr 1 eða 2x, síðan taka bút úr 3x og síðan enda á 4 eða 5x. Fiskurinn er sterkur hér á landi og því ekki ráðlagt að fara niður fyrir 4x nema aðstæður séu erfiðar t.d. glampandi sól og fiskurinn taumstyggur.

Aðstæður: Margir halda að það þurfi að vera algjört blankalogn til að veiða á þurrflugu en svo er ekki raunin. Það fer að vísu mikið eftir svæðinu sem maður er að veiða á en yfirleitt er hægt að finna skjól þó það sé vindur t.d. ef það eru hólmar eða eyjar á svæðinu. Í skjólinu safnast oft saman skordýr og flugur þannig að fiskurinn getur oft lent í miklu fæðuframboði á þeim stöðum. Dæmi um svoleiðis skilyrði eiga sér oft stað í Laxá í Aðaldal. Á silungasvæðunum fyrir neðan stíflu eru oft hólmar og eyjar og þar myndast oft góðar aðstæður til þurrfluguveiða þrátt fyrir að það sé vindur.

Er fiskurinn að vaka?: Það eykur líkurnar þínar töluvert ef þú sérð fisk vera vaka. Auðvitað er hægt að fá fisk til að koma upp í þurrflugu þó maður hafi ekki séð neitt en líkurnar eru ekki með manni í liði. Ef að ég sé engan fisk vaka og lítið af flugu á yfirborðinu þá set ég yfirleitt stóra þurrflugu undir. Oft snýst þetta um einfalda stærðfræði. Fiskurinn verður að telja sig vera græða á því að eltast við fluguna. Ef fiskurinn er að græða meiri næringu en orkunni sem hann eyðir í að fara á eftir flugunni þá er ekki útilokað að hann láti til skara skríða.  Margir reyndir veiðimenn hafa sagt mér að þegar þú leitar af fiski sem er að vaka þá kastarðu aldrei á fisk sem hefur vakað aðeins einu sinni. Þú vilt bíða og kasta á fisk sem hefur komið upp eftir flugu á sama stað tvisvar eða oftar. Sá fiskur er líklega búinn að koma sér í góða stöðu og búinn að finna fæðu-línu sem ber til hans mikið æti. Sá fiskur er líklegri til að taka fluguna þína heldur en fiskur sem kom upp einu sinni og svo ekki meir.

Lognið á eftir storminum: Nei ég er ekki að ruglast. Oft myndast ótrúlegar aðstæður til þurrfluguveiði eftir að það lægir eftir hvassviðri. Yfirleitt er yfirborð vatnsins loðið af allskonar skordýrum sem annað hvort fauk á yfirborðið eða settist á það í leit að skjóli. Ég hef sjálfur lent í þessu. Ég var með félaga mínum frá Írlandi við veiðar á Efra-Hrauni fyrir nokkrum árum síðan. Veður var vont framan af degi og í raun svo hvasst að við fórum ekkert út á morgunvaktinni. Þegar farið er að líða á seinni vaktina fer vindinn að lægja og er vindur orðinn þokkalega hægur um kl. 18:00. Við hendumst þá út og keyrum niður á Hraun. Það var rólegt fyrsta klukkutímann en við sáum samt að það var gríðarlega mikið æti á ánni eftir rokið. Þegar klukkan var orðin rúmlega 19 þá var eins og einhver hefði bara ýtt á takka því það fór gjörsamlega allt í gang og fiskur vakandi út um allt. Lentum við félagarnir í ævintýranlegum tveimur tímum þar sem við lönduðum hverjum fisknum á fætur öðrum á þurrflugu.

Náttúran og fluguval: Mikilvægt er að vera meðvitaður um það hvað er að gerast í náttúrunni þegar verið er að velja flugur. Góð regla er að skoða yfirborð vatnsins, velta steinum til að sjá hvað kemur undan o.s.frv. Það er hægt að setja þurrflugur í marga flokka en ég ætla flokka þá í tvo megin flokka og þeir eru yfirborðsflugur og emerger sem ég hef ekki góða íslenska þýðingu á. Yfirborðsflugurnar fljóta allar á yfirborðinu á meðan emerger er fluga sem er að hluta til undir yfirborðinu en hinn hlutinn flýtur. Til að taka dæmi um emerger má t.d. nefna klinkhammer sem er líklega ein vinsælasta þurrflugan í dag.

Það er endalaust hægt að tala um þurrfluguveiði. En þegar ég var að undirbúa mig að skrifa þessa grein þá rakst ég á alveg magnað myndband um þurrfluguveiði sem segir í rauninni allt sem segja þarf um þurrfluguveiði.

Til að horfa á þetta frábæra myndband um þurrfluguveiði smellið hér

Uppáhalds svæðin mín til að veiða á þurrflugu eru: Lónsá á Langanesi, Presthvammur, Staðartorfa, Múlatorfa og Efra-Hraun.

Hér eru 2 myndir af fiskum sem ég náði á þurrflugu í Lónsá.

82210418_722464174948141_8926318260278788096_o83506448_722464111614814_1063538055446528000_o

Fyrir þá sem vilja geta séð veiðitengt efni á samfélagsmiðlum strax 1. apríl þá getið þið fylgst með miðlunum mínum en ég mun hefja veiðar strax og veiðitímabilið byrjar.

Einnig eru fleiri gjafaleikir á næstunni. Ég á eftir að gefa flugubox frá Veiðiríknu og einnig eitt Stirðu box eftir Marinó. Einnig ætla ég sjálfur að gefa flugubox með flugum sem ég hef pantað frá Kenya ásamt því að ég mun gefa veiðileyfi þegar nær dregur veiðitímabili.

Ef þú ert með vöru eða veiðisvæði sem þú villt koma á framfæri að þá ekki hika að hafa sambandi.

Leave a comment